top of page

FLYTJENDUR 2024

Sólveig Steinþórsdóttir  /  fiðluleikari

Sólveig Steinþórsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1995 og hóf fiðlunám þriggja ára gömul við Allegro  Suzukitónlistarskólann undir handleiðslu Lilju Hjaltadóttur og lærði síðar hjá Guðnýju  Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk bakkalárprófi frá Listaháskólanum í Berlín  undir handleiðslu Eriku Geldsetzer árið 2019 og meistaragráðu frá Listaháskólanum í Zürich árið 2021  þar sem kennari hennar var Rudolf Koelman, hvort tveggja með hæstu einkunn. Hún hefur leikið  einleiks- og kammertónlist á Íslandi, Þýskalandi, Sviss og Ítalíu og komið fram á ýmsum hátíðum, þar  á meðal Bodensee Festival, Festival alte Musik Zürich og Tónlistarhátíð unga fólksins, og á  tónleikaröðunum Sígildir sunnudagar í Hörpu, Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni og Tíbrá í Salnum í  Kópavogi. Hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveit á Íslandi, Sviss og á Ítalíu og leikið  m.a. fiðlukonserta eftir Tschaikowsky, Sibelius, Saint-Saëns og Bach og konsertstykki eftir Chausson,  Sarasate og Saint-Saëns. Hún hefur einnig spilað sem barokkfiðluleikari með ýmsum hópum m.a.  Barokkbandinu Brák, Zürcher Barockorchester, Akademie für alte Musik Berlin og J. S. Bach Stiftung  St. Gallen, og komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum t.d. Bachfest Leipzig og Sumartónleikum í Skálholti. Einnig hefur hún verið meðlimur í Kammersveitinni Elju frá því að hún var stofnuð árið  2017 og m.a. leitt kammersinfóníur eftir Stravinsky og Schönberg. Sólveig er fiðluleikari  Píanókvartettsins Neglu sem var stofnaður í janúar á þessu ári og hélt tónleika bæði í Kópavogi og á  Akureyri og mun koma fram á tvennum tónleikum í Hörpu á næsta ári. Sólveig hefur kennt á  Alþjóðlegu tónlistarakademíunni í Hörpu síðustu þrjú sumur. Í júní 2023 gaf hollenska  útgáfufyrirtækið Challenge Classics út upptöku á flutningi hennar á sex einleikssónötum  EugenesYsaÿes sem tekin var upp í Winterthur í Sviss í október 2022. Sólveig leikur á fiðlu úr smiðju  Hans Jóhannssonar, frá árinu 2011. 

image.jpeg
IMG_7576-Edit.jpg

Rannveig Marta Sarc  /  fiðluleikari

Rannveig Marta Sarc fæddist í Slóveníu og hóf að læra á fiðlu 4 ára gömul.  11 ára flutti hún til Íslands og lærði hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur, þangað til hún hélt til New York í framhaldsnám við Juilliard skólann, þar sem hún lauk meistaragráðu á Kovner styrk. 
Rannveig hefur verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Slóvensku filharmóníunni, Bacau „Mihail Jora” filharmóníunni, Ungfóníunni, Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík og Orchestra Matutina. Á vettfangi kammertónlistar hefur hún komið fram í meðal annars Carnegie Hall og Alice Tully Hall og á tónlistarhátíðum eins og Ravinia Steans Music Institute, IMS Prussia Cove, Thy Chamber Music Festival, Aspen, Kneisel Hall og NEXUS Chamber Music Chicago. Rannveig er meðlimur í Kammersveitinni Elju, New York Classical Players og spilar reglulega í Chicago sinfóníuhljómsveitinni og Saint Paul kammersveitinni. Hún hefur verið konsertmeistari í Civic Orchestra of Chicago, Juilliard hljómsveitinni, Peoria Symphony og leysti af sem 3. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2022.

Rannveig hlaut verðlaunin Luminarts Strings Fellowship 2022, fyrstu verðlaun í the Musicians Club of Women Scholarship Award 2021 og var valin „bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022. Hún er ötull flytjandi samtímatónlistar og sem meðlimur Dúó Freyju gaf hún út plötu með sex dúettum fyrir fiðlu og víólu eftir íslenskar konur og var hópurinn tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2022. 

Anna Elísabet Sigurðardottir  /  víóluleikari

Anna Elísabet Sigurðardóttir, víóluleikari, fæddist árið 1997 í Reykjavík. Fyrstu árin lærði hún hjá Ásdísi Runólfsdóttur í Tónlistarskóla Kópavogs og lauk síðan framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Þórunnar Óskar Marinósdóttur árið 2017. Vorið 2022 lauk hún meistaragráðu frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði hjá Tim Frederikssen og Magda Stevensson.

Frá því að hún lauk námi í Kaupmannahöfn hefur hún verið á samningi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og spilað fjölda kammertónleika ásamt því að kenna. Anna er meðlimur Píanókvartettsins Neglu, kammersveitarinnar Elju og kemur reglulega fram með ýmsum kammerhópum. Hún hefur komið fram á fjölda tónleikaraða og þar má nefna Sígilda sunnudaga, Tíbrá, Feima, Reykjavík Classics, Seiglu og á Sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Anna hefur spilað sem gestur með Kammersveit Reykjavíkur​ og CAPUT auk þess að spila reglulega með Fílharmóníunni í Kaupmannahöfn, Reykjavík Orkestru og Kammeróperunni.

Í sumar kom hún fram á Velkomin Heim tónleikaröðinni í Hörpuhorni þar sem hún flutti sín uppáhalds víóluverk og var unglistamaður og kennari á Hörpuakademíunni. Í haust mun Anna flytja til Sønderborg í Danmörku og spila með sinfóníuhljómsveitinni þar og spila með Neglu í Kammermúsíkklúbbnum. Anna spilar á víólu smíðaða af Yann Besson árið 2011.

IMG_1379.JPG
GG2661.jpg

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir  /  sellóleikari

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir hefur haslað sér völl sem einn af fremstu tónlistarmönnum Íslands og hefur hlotið mikið lof fyrir "afar músíkalskan flutning", "endalaus blæbrigði" og "dýpt og breidd" í túlkun (Morgunblaðið). Hún hefur komið fram í mörgum af helstu tónleikasölum heims, þar á meðal Carnegie Hall í New York, Southbank Centre í Lundúnum, Fílharmóníunni í Varsjá og Banff Centre í Kanada. Hún hefur einnig leikið sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Unga Fólksins og Sinfóníuhljómsveit Konunglegu tónlistarakademíunnar í Lundúnum. Hún hefur svo starfað sem Unglistamaður hjá Tónlistarhátíð Unga Fólksins og Tónlistarakademíunni í Hörpu. Sumarið 2021 hélt Geirþrúður í tónleikaferðalag um Ísland þar sem hún lék allar sex einleikssellósvítur J.S. Bach á tónleikum víðsvegar um landið. Lokatónleikarnir fóru fram í Norðurljósum í Hörpu og hlutu mikið lof gagnrýnanda, sem ritaði um flutning hennar, "túlkunin einkenndist af snerpu og skaphita, sannfærandi flæði og músíkölsku innsæi. Smæstu blæbrigði voru einstaklega fallega mótuð, en meginlínurnar skýrar... Þetta var mögnuð upplifun (Fréttablaðið)." 

Geirþrúður hefur holtið ýmis verðlaun fyrir flutning sinn en þar má nefna alþjóðlegu Anton Rubinstein sellókeppninna, í Hellam Young Artist keppninna, New York International Artists Association keppnina og Thaviu strengjakeppninna. Hún var nýlega í undanúrslitum í alþjóðlegu Lutoslawski sellókeppninni í Póllandi og var valin sem listamaður hjá City Music Foundation í London.

Þóra Kristín Gunnarsdóttir  /  píanóleikari

Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari hóf tónlistarnám sitt á Akureyri hjá Dýrleifu Bjarnadóttur og lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í píanókennslu og píanóleik frá tónlistarháskólanum í Luzern árið 2017. Árið 2020 lauk hún annarri meistaragráðu í samspili og meðleik frá listaháskólanum í Zürich hjá Friedemann Rieger. Hún sótti þar einnig tíma í ljóðameðleik m.a.hjá Christoph Berner. Hún hefur sótt masterklassnámskeið hjá m.a. Thomas Hampson, Simon Lepper, Josef Breinl og Ewa Kupiec. Þóra kemur oftast fram sem meðleikari eða í kammerhópum en á árinu 2021 lék hún einleik með ZHdK Strings á tónleikum í Sviss og í Hörpu. Hún hefur komið fram í ýmsum tónleikaröðum og hátíðum á Íslandi og í Sviss, m.a. í Klassík í Vatnsmýrinni, Velkomin heim í Hörpu, á tónlistarhátíðinni Chesa Planta Musiktage og á tónleikum hjá Liedrezital Zürich. Síðustu ár hefur hún verið meðleikari á sumarnámskeiðum fyrir söngvara hjá Peter Brechbühler í Frakklandi. Þóra hefur unnið við ýmsa tónlistarskóla í Sviss en starfar nú sem píanókennari í Hafnarfirði og meðleikari við Menntaskóla í tónlist.

image.jpeg
bottom of page